Sumarstörf 14-16 ára

Sumarið 2015 fá 14 – 16 ára unglingar vinnu við Vinnuskóla Hafnarfjarðar, þ.e. unglingar fæddir árin 1999 – 2001.

Skrifstofa Vinnuskólans er í gamla hjálparsveitahúsinu að Hrauntungu 5. Skrifstofan er opin frá kl. 9.00 til 16.00 nema frá 11. júní til loka júlí en þá er opið frá kl. 8:00 til 16.30. Sími vinnuskólans er 565-1899, netfangið vinnuskoli@hafnarfjordur.is

Vinnutímabil

Í ár eru tvö tímabil hjá 14, 15 og 16 ára unglingum (fæddir 1999-2001). Annars vegar frá 12. júní – 23. júlí og 2. júlí – 13. ágúst. Almennt er ekki unnið á föstudögum. Nema þann 12. júní.

Daglegur vinnutími

14, 15 og 16 ára unglingar vinna aðra hverja viku fyrir hádegi og eftir hádegi hina, mánudaga til fimmtudaga.

Fyrir hádegi er unnið frá 9.00 – 12.00 og eftir hádegi frá 13.00 – 16.00.

Vinnustundir á viku eru því 12.

Laun

16 ára unglingar eru með 544,93 kr. á tímann og orlof þar ofan á. Þegar allt er talið geta unglingar á þessum aldri unnið sér inn rúmlega 43.000 kr. yfir sumarið miðað við fulla mætingu. Mjög brýnt er að 16 ára unglingar skili inn skattkorti svo ekki verði tekinn af þeim skattur. Flokksstjórar munu minna unglingana á skattkortin fljótlega eftir að vinna hefst.

15 ára unglingar verða með 409,90 kr. á tímann og orlof þar ofan á. Miðað við fulla mætingu geta þau unnið sér inn rúmlega 32.000 kr.

14 ára unglingar verða með 362,74 kr. á tímann og orlof þar ofan á. Miðað við fulla mætingu verða heildarlaun hjá þeim um 28.000 kr.

Orlof (10,17%) er borgað út hjá öllum aldurshópum.

Laun verða greidd 6. júlí fyrir júní, 7. ágúst fyrir júlí og 1. september fyrir ágúst.

Daglegt starf

Flokksstjóri er verkstjóri og hefur eftirlit með vinnuhóp sínum á vinnutíma, setur fyrir verkefni, er til leiðsagnar og vinnur með eins og kostur er.

Ætlast er til að allir starfsmenn vinnuskólans séu stundvísir, vinnusamir og sýni samstarfsmönnum svo og öllum bæjarbúum fyllstu kurteisi.

Mikilvægt er að klæða sig með hliðsjón af veðri og koma með nesti í vinnuna. Allar ferðir í búðir eða sjoppur eru bannaðar á vinnutíma.

Forföll

Ef um forföll er að ræða þurfa forráðamenn að tilkynna þau til skrifstofu Vinnuskólans. Vanti unglinga í vinnu dag eða dagspart án þess að það sé tilkynnt á réttan hátt hafa flokksstjórar eða starfsfólk á skrifstofu samband við heimilin og leita skýringa.


Vilji forráðamenn taka eitthvað sérstaklega fram geta þeir sett sig í samband við starfsfólk Vinnuskólans.


Skrifstofa tómstundamála í Hafnarfirði | Strandgata 6, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5500 | Netfang ith@hafnarfjordur.is